Sunday, May 02, 2004

Sumarnótt í Skagafirði

Gullbúinn himinvagn kvöldsins
er horfinn við eyjar í þögul grunn.
Fjörðurinn lognblár og landið
lögzt til værðar með munn við munn.
Hestar að nazla á votum völlum.
Vinnulúnir menn
sofa í ró, fá heilnæma hvíld
undir herðabreiðum fjöllum.
(1959)

Saturday, May 01, 2004

Talað við laufgað tré

Skáld verð ég ekki fyrr en ég finn að þú
ert fólgið í mínu blóði, ég orðinn þú:
laufgræn harpa í höndum myrkurs og birtu
himins og jarðar; samur þér, sem ert brú
er sól og moldir millum sín hafa reist

orðinn máttugt hljóðfæri í höndum lífsins
harpa lifandi strengja — eins og þú.
(1959)
Andspænis Hölderlin

Hver fylgir þér alla leið inn í ljómann af hæðum?
Hver leggur með þér á brattann handan við málið
að því er virðist, vörðulaus fjallstig hugans?
Vegur til yztu myrkra — þræddur í kvæðum!

Hver stígur niður í stormana sem þig hrekja
um staðlaus djúpin þar sem nóttin á heima?
Enginn, enginn: of langt af leið vorri snúið
er ljóð þitt, og hrópið eitt kann spor þess að rekja.

En þegur þú heldur með hljóðpípuleik inn í skóga
hugar að dalaþorpunum, litum og röddum
horfir á bóndans hvíld að dagsverki loknu
hlustar á kornið og vinviðarteinunginn gróa

borgir skoðar á bökkum fljótanna þekku
býrð þér stundardvöl í forsælu trjánna
sem laufríkar krónur hneigja við hús og við brunna
eða hátt þér útsýnis leitar í sólskinsbrekku

og skyggnir vort jarðlíf: fallvelti, fegurð, ný gildi
og finnur því heiðar brautir vonar og dirfsku —
tengir það saman í tímanum sem þú skapar
úr tónum bragarins, sveigðum að hörku og mildi

þá ferð þú aleinn, vér fylgjum lofsöngnum hreina
og ferðumst með þínum augum, þó horfir þú lengra
en vér fáum greint, sem guðina heyrðum ei tala
í geislum, í eldingum, þögn moldar og steina.

Ljós þú greyptir í orð, upphæðir fornar
íklæddar sjónhring goðsögulegrar tignar.
Vér lifum und stjörnum sem þöglar þyrlast í fjarskann —
þyrlast í myrkrinu, táknmyndir þeirra horfnar.
(1970)
Fjall

Hve glöggt ég finn að orð mín reynast óþörf
já einnig vanmegnug þess
að lýsa þér nú á nýrri og betri veg
nákvæmar en sú gamla sögn, að maður
valdi sér þig úr ótal öðrum fjöllum
eilífðarbústað, kaus að deyja í þig.

Það laðar fram hið sanna svipmót þitt
að segja: Þú ert kjörinn minn hinzti staður
í þér vil ég lifa þegar sól er setzt
síðast, og vopn mín grafin. — Kvæði mitt
bætir þar hvergi um, því ætíð verður
hinn ókunni staður handan við lífið sá
af draumum okkar þar sem ríkjum ræður
hin ramma og sára þrá
eftir sem dýpstri fegurð. Fólgið er allt
sem frekast má um lit þinn segja og tign
bak við þá sögn að forðum varst þú valið
vistlegast húsa til svo langrar dvalar.
Þú skyggnist hátt í hreinan svala. Áin
hnígur við þínar rætur blá og lygn.

Þó finnst mér stundum við tjá öllum öðrum
augljósar þína glæstu fegurð og reisn
sem fylltum öll þín öldnu salarkynni
ísköldu grjóti, þangað deyr ei neinn
tjá hana með því einu að dvelja úti
og undrast, sífellt dást að þér að nýju
þú stóri steinn!
(1955)